Færsluflokkur: Draugasögur

Starkaðsver

Starkaðsver heitir á framanverðum Gnúpverjarétti, og stendur stór steinn í verinu og heitir Starkaðssteinn; er sagt, að nafnið sé svo til orðið, að Starkaður hefir maður heitið frá Stóruvöllum í Búðardal, er hafi átt unnustu, sumir segja á Stóranúpi, sumir á Þrándarholti í Gnúpverjahrepp.

Einu sinni sem oftar fór hann að finna hana, en varð úti sökum illviðris og þreytu í verinu undir steininum, alveg á réttum vegi.

Um sama leiti dreymdi heitmey hans, að Starkaður sinn kæmi til sín og kvæði:

Angur og mein fyrir auðarrein
oft hafa skatnar þegið.

Starkaðs bein und stórum stein
um stundu hafa legið.


Unnustinn

Einu sinni var piltur og stúlka á bæ einum; þau voru lofuð og unnust mjög.  Um veturinn átti hann að fara til sjóróðra, og áttu þau tal með sér , áður en hann fór.  Hét hann þá unnustu sinni, að hann skyldi skrifa henni vel og rækilega.  Hann fór síðan á burt, og leið svo fram undir jól.

En um jólin fór stúlkuna oft að dreyma unnusta sinn, og kvað svo mjög að því, að hún gat varla sofið nokkra rólega stund.  Var hann að segja henni frá ýmsu bæði um sjálfa hana og aðra.

Þar á bænum var kerling ein heldur fróð; fór stúlkan til hennar, og sagði henni frá draumum sínum, og að hún mætti eigi sofa með neinni værð.

Kerling lét lítt yfir, en sagði þó við stúlkuna:  Fara skaltu að sofa í kvöld; en ég skal búa um hurðina á húsi því, er þú sefur í.

Um kvöldið fór stúlkan að sofa; dreymdi hana þá að unnusti sinn kæmi á gluggann og mælti: Illa gjörðir þú, að loka hurðinni fyrir mér; er nú svo komið, að ég má eigi framar til þín koma, en þar eð svo er, þá vildi ég vera draumamaður þinn.

Síðan kvað hann vísu þessa:

Vér höfum fengið sæng í sjó
sviptir öllu grandi;
höfum þó á himni ró
hæstan guð prísandi.

Fór hann síðan á burt.  En stúlkan vaknaði.  Var hún þá svo óð, að hún hljóp út, og ætlaði að fyrirfara sér.  En sumt fólk var þá eigi til sængur gengið, og náði það henni.  Varð stúlkan svo jafngóð aftur, og vitjaði maður hennar aldrei síðan.


Bóndinn á Grænmó

Stóri-Grænmór hét eitt af fornbýlum þeim sem höfðu verið í byggðarlagi því í
Norðurmúlasýslu, sem Eyjar heita.
Á 17. öld löfðu enn uppi kofar á Grænmó, og fékkst lengi taða af bæjarrústunum.
Á bæ þessum var illt vatnsból á vetrum, svo sækja varð vatn í Lagarfljót, sem þá
rann í öðrum farveg en nú, og miklu nær bænum, en þó var þangað
löng stekkjargata.

Einu sinni í kafaldsbyl ætlaði bóndinn á Grænmó að sækja vatn í Lagarfljót, og
kom ekki aftur. En um nóttina var þessi vísa kveðin á glugganum uppi hjá konunni:

Frost og fjúk er fast á búk,
frosinn mergur í beinum;

Það finnst á mér, sem fornkveðið er,
að fátt segir af einum.

Þótti mönnum bóndinn ganga mjög aftur eftir þetta, og lagðist þá byggð niður á Grænmó 


Síra Þorlákur Þórarinsson

Nóttina eftir að síra Þorlákur Þórarinsson drukknaði í Hörgá (1773), dreymdi stúlku nokkra er var honum kunnug, að hann kæmi til hennar, og kvæði:

Dauðinn fór djarft að mér
dauðanum enginn ver;
dauðinn er súr og sætur,
samt er hann víst ágætur
þeim sem í drotni deyja,
og dóminum eftir þreyja.


Því draugasögur

Grettir og Glámur
Grettir og Glámur eftir Bjarna Jónsson 
 
Ég hef alltaf haft gaman af þessum sögum af draugum, forynjum, mórum og álfum og hef nokkrar bækur hér hjá mér myndin hér að ofan er af einni þeirra.
Tvö eintökin eru mjög gömul eitt frá 1950 - 60 og hitt frá 1906. Mér datt í hug að setja eina og eina sögu hér inn til skemmtunar, og eru þá undir flokknum draugasögur.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband